Innleiðing á hringrásarhagkerfi

Sveitarfélögum er skylt samkvæmt lögum að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs sem næst raunkostnaði. Skylt er að innheimta gjald sem miðast við magn og gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélög þurfa því að hverfa frá því að nota kerfi sem innheimtir eitt fast gjald fyrir meðhöndlun úrgangs í að innheimta samkvæmt því magni og tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér.

Nýtt kerfi við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs var innleitt hjá Skagabyggð um áramótin í samræmi við lagaákvæði sem tóku gildi á síðasta ári. Innheimtan tekur í dag mið af aðferð sem hefur verið nefnd „Borgað þegar hent er“ (e. Pay as you throw) sem gengur út á að innheimt er eftir magni og tegund úrgangs í stað fasts gjalds. Þannig verður til fjárhagslegur hvati til að draga úr myndun úrgangs en jafnframt hvati til að skila úrgangi flokkuðum til endurnotkunar og endurvinnslu, fremur en með blönduðum úrgangi.

Íbúar hafa ákveðinn sveigjanleika til að hafa áhrif á kostnað sinn við meðhöndlun úrgangs með því að ákveða stærð íláta við sitt heimili. Þannig geta þeir sem láta minna af úrgangi frá sér og flokka meira, lækkað kostnað sinn vegna meðhöndlunar úrgangs. Á álagningarseðlum sem íbúar fá í ár er að finna upplýsngar um gjöld sem byggð eru á stærðum íláta og hins vegar gjöld vegna fasts kostnaðar vegna reksturs söfnunarstöðva og annars fasts kostnaðar.

Innheimta eftir stærð íláta í gegnum álagningarkerfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar, svokölluð rúmmálsleið, er einfaldasta leiðin til að innleiða Borgað þegar hent er kerfi. Rúmmálsleiðin uppfyllir kröfur laga um meðhöndlun úrgangs og krefst þess að sveitarfélög kortleggi fjölda og stærð íláta, útfæri gjaldskrá sem tekur mið af magni og tegund úrgangs og bjóði íbúum sínum upp á að geta breytt stærð íláta sem þeim ber að hafa við heimili sitt samkvæmt fyrirmælum sveitarstjórnar.

Fast gjald vegna meðhöndlunar úrgangs má samkvæmt lögum takmarkast við 50% af innheimtu til ársins 2025. Frá og með áramótum 2025 mega föst gjöld þó aðeins vera 25% af innheimtu sveitarfélaga og breytileg gjöld 75% af innheimtu sveitarfélaga.

Á íbúafundi sem haldinn var í Skagabúð 2. nóvember 2023 var valið úr nokkrum leiðum varðandi meðhöndlun á úrgangi og tekur gjaldskráin mið af niðurstöðu fundarins.

Um áramótin tilkynnti fulltrúi frá Sveitarfélaginu Skagaströnd að sveitarfélagið hefði ekki tök á því að taka við neinum úrgangi frá íbúum eða rekstraraðilum úr Skagabyggð en úrgangsleið íbúa í Skagabyggð fyrir annan úrgang eru sérsafnanir eins og áður og grenndarstöð hjá IGF á Sauðárkrók.

Sorphirðudagatal má finna hér og flokkunarhandbók.

Frekari upplýsingar veitir oddviti Skagabyggðar Erla Jónsdóttir á netfangið skaga.byggd@simnet.is