Dreifibréf - Íbúakosning um sameiningu sveitarfélaganna Skagabyggðar og Húnabyggðar

Dreifibréf - Íbúakosning um sameiningu sveitarfélaganna Skagabyggðar og Húnabyggðar

8. til 22. júní 2024

Sveitarstjórnir Skagabyggðar og Húnabyggðar hafa samþykkt að efna til kosninga á meðal íbúa um sameiningu sveitarfélaganna. Kosningarnar munu fara fram á tímabilinu 8.- 22. júní 2024. Kosningarnar eru bindandi og þarf samþykki meirihluta íbúa í hvoru sveitarfélagi fyrir sig til þess að af sameiningu verði.

Álit samstarfsnefndar

Sveitarstjórnir beggja sveitarfélaga hafa fjallað um álit samstarfsnefndar um sameiningu á grundvelli greinargerðar sem nefndin vann um mögulega sameiningu sveitarfélaganna.

Það er mat samstarfsnefndarinnar, að undangengnu samráði og stöðugreiningu, að það væri framfaraskref að sameina sveitarfélögin í eitt sveitarfélag. Þannig verði til öflugt sveitarfélag með aukinn slagkraft og sterkari rekstrargrundvöll sem gefi tækifæri á að bæta þjónustu við íbúa.

Íbúar eru hvattir til að kynna sér álitið og forsendur þess á vefsvæðum Húnabyggðar og Skagabyggðar.

Tillaga samstarfsnefndar

Í tillögu samstarfsnefndar um sameiningu felst að sveitarstjórn Húnabyggðar taki við stjórn sameinaðs sveitarfélags ef sameining sveitarfélaganna verður samþykkt. Núverandi sveitarstjórn Skagabyggðar tæki hlutverk heimastjórnar sem sinni afmörkuðum verkefnum er varða hagsmuni svæðisins og íbúa þess út núverandi kjörtímabil. Fjallskilanefnd Skagabyggðar myndi starfa óbreytt út kjörtímabilið.

Gert er ráð fyrir að leitað verði eftir samstarfi við Sveitarfélagið Skagaströnd þannig að börn geti sótt leik- og grunnskóla þangað ef foreldrar þeirra óska þess. Eins yrði leitað eftir samningum um áframhaldandi þátttöku aldraðra og öryrkja sem þess óska í félagsstarfi og um samstarf við slökkvilið til að tryggja öryggi og viðeigandi viðbragð.

Íbúafundir

Í júní verða haldnir íbúafundir þar sem kynnt álit samstarfsnefndar verður kynnt ásamt þeim forsendum sem liggja til grundvallar tillögu um sameiningu sveitarfélaganna. Opið verður fyrir spurningar og umræður við íbúa.

Í Skagabyggð:
Íbúafundur verði haldinn í Skagabúð, mánudaginn 3. júní kl. 20:00.

Í Húnabyggð:
Íbúafundur verði haldinn í Félagsheimilinu á Blönduósi, þriðjudaginn 4. júní kl. 20:00.

Fyrirkomulag kosninga

Kosningarétt hafa íslenskir og norrænir ríkisborgarar sem náð hafa 16 ára aldri fyrir lok atkvæðagreiðslunnar þann 22. júní 2024 og eru með skráð lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaganna þann 16. maí 2024. Erlendir ríkisborgarar sem uppfylla sömu skilyrði og íslenskir og sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir upphaf kosningar, eiga einnig kosningarétt. Opnað verður fyrir uppflettingu í kjörskrá 14 dögum áður en kosning hefst á vefsvæðinu:
www.skra.is/folk/kjorskra-og-kosningar/hvar-a-eg-ad-kjosa

Kosningarnar fara fram í hvoru sveitarfélagi fyrir sig og kjósendur greiða atkvæði í því sveitarfélagi sem þeir eiga lögheimili.

Kjörstaðir

Í Skagabyggð verður kosið í Skagabúð. Opnunartími kjörstaðar er:

8. júní 2024 kl. 12:00 - 14:00

15. júní 2024 kl. 12:00 - 14:00

22. júní 2024 kl. 12:00 - 18:00

Í Húnabyggð verður kosið á bæjarskrifstofum Húnabyggðar að Hnjúkabyggð 33, og í Íþróttamiðstöðinni að Melabraut 2 á Blönduósi:

Opnunartími á bæjarskrifstofu:

9:00 - 15:00 virka daga

Opnunartími í íþróttamiðstöð:

8. júní 2024 kl. 12:00 - 16:00

22. júní 2024 kl. 10:00 - 18:00

Póstkosning

Sjái íbúi sér ekki fært að mæta á kjörstað á kjörtímabilinu er hægt að óska eftir því að greiða atkvæði sitt með póstkosningu. Slík beiðni skal berast í tölvupósti eða í síma og skal taka fram hvort kjörgögn eigi að berast til viðkomandi aðila í almennum bréfpósti eða í tölvupósti. Sé kosið í póstkosningu ber íbúi ábyrgð á að koma kjörseðli á kjörstað fyrir lokun kjörstaða, 22. júní 2024.

Tengiliðir vegna póstkosninga

Skagabyggð:
Bjarney Ragnhildur Jónsdóttir, bjarneyragnhildur@gmail.com
sími: 867-4566

Húnabyggð:
Katrín Benediktsdóttir, katrin@hunabyggd.is
sími: 455-4700