Um okkur

Skagabyggð er 90 manna sveitarfélag í Austur Húnavatnssýslu og liggur frá Laxá í Refasveit norður að Hrafná og aftur frá Sveitarfélaginu Skagaströnd og norður á Skagatá.  Að austan að sýslumörkum Skagafjarðar og Austur Húnavatnssýslu.

Í Skagabyggð eru náttúruperlurnar Kálfshamarsvík og Króksbjarg.

Kálfshamarsvík

Kálfshamarsvík er 23 kílómetra fyrir norðan Skagaströnd . Á Kálfshamarsnesi myndaðist fyrsti vísir að þorpi í upphafi 20. aldar. Þorpið var nefnt Kálfshamarsvík eftir víkinni sem það stóð við. Það varð aldrei fjölmennt, rétt um 100 manns þegar flest var á árunum 1920-30. Byggðinni hnignaði hratt upp úr 1930 og um 1940 höfðu flestir íbúarnir flust burt af staðnum.

Í Kálfshamarsvík hafa húsarústir verið merktar með nöfnum húsanna sem þar stóðu ásamt nöfnum ábúenda. Einnig hefur þar verið sett upp upplýsingaskilti fyrir ferðamenn. Í Kálfshamarsvík er stór viti og í víkinni má sjá mikið af sérstöku og fögru stuðlabergi sem nær allt í sjó fram.

 

Króksbjarg

Nokkru norðan við bæinn Hof á Skagaströnd hefjast 40-50 m há björg við sjóinn og ná þau út undir Kálfshamarsvík, um 10 km leið. Syðst heitir þar Króksbjarg, Skriðbjarg, Bjargabjörg og Bakkar nyrst. Nokkuð er af sjófugli í björgunum þó aðallega fýl.