Frístundastyrkur

Frístundastyrkir grunnskólabarna í Skagabyggð

Almennt um frístundastyrk

Foreldrar barna með lögheimili í Skagabyggð eiga rétt á frístundastyrk, fyrir hvert barn á grunnskólaaldri, sem þátt tekur í íþrótta- og æskulýðsstarfi á árinu. Skil á gögnum vegna frístundaþátttöku síðastliðins árs er í síðasta lagi 31. janúar næsta árs. Eftir það fellur réttur þess árs niður.

Tilgangur

Tilgangur frístundastyrkja er að hvetja börn og unglinga til þátttöku í hvers konar íþrótta- og æskulýðsstarfi og að jafna möguleika foreldra til að börnum sé það mögulegt.

Hvaða frístundastarf

Frístundastyrkur nær til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir styrkurinn fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám. Skilyrði til að frístundastyrkur nái til endurgreiðslu á félags- og tómstundastarfi er að starfsemin sé viðurkennd af sveitarstjórn og um hana séu veittar allar þær upplýsingar sem óskað er eftir.

Hverjir eiga rétt

Foreldrar með lögheimili í Skagabyggð sem eiga börn á grunnskólaaldri eiga rétt á frístundastyrk, fyrir hvert barn, til niðurgreiðslu á íþrótta- og tómstundastarfi. Þegar greitt hefur verið fyrir það námskeið eða starf sem grunnskólabarn vill eða hefur tekið þátt í, er farið með kvittunina til oddvita sveitarfélagsins þar sem sótt er um styrkinn. Fjárhæð sem nemur verðgildi frístundastyrks verður síðan endurgreiddur vegna viðurkennds frístundastarfs en þó aldrei hærri en sem nemur greiddu gjaldi.

 

Samþykkt á fundi sveitarstjórnar Skagabyggðar 29. desember 2022.