Áríðandi tilkynning til íbúa

Ágætu íbúar,

Um síðustu áramót breyttust lög um meðhöndlun úrgangs, nú ber öllum skylda til þess að flokka allan heimilisúrgang í 7 flokka. Þ.e. pappír/pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni. Sveitarfélaginu ber skylda til þess að halda utan um töluleg markmið og skila þarf sérstaklega skýrslum um magn sem fellur til í sveitarfélaginu varðandi magn úrgangs. Blandaður úrgangur skal almennt ekki vera meiri en 10% af almennum heimilisúrgangi.

Á síðasta íbúafundi í Skagabúð var mikill meirihluti sem vildi láta sækja til sín heimilisúrgang. Til þess að halda þeim kostnaði í lágmarki var ákveðið að fækka hirðudögum og semja við Íslenska gámafélagið um að sækja til okkar blandaðan úrgang á 6 vikna fresti og plast/pappa og plast á 12 vikna fresti. Síðasta hirða á vegum Terra er því áætluð 27. desember 2023 og mun þá jafnframt safna saman öllum tunnum í sinni eigu. Í Skagabyggð þarf því að dreifa nýjum tunnum á alla bæi. Ákveðið hefur verið að almennt verði notað 660L tunnur undir pappír og pappa, 360L tunnur undir plast og 240L tunnur undir blandaðan heimilisúrgang. Þeir sem telja sig ekki þurfa svona stór ílát geta sótt um að fá minni ílát, í boði verða auk þessara eininga 120L sorpílát. Íbúar verða ábyrgir fyrir sínum ílátum og verða sjálfir að greiða fyrir ný ílát eyðileggist þessi ílát en endingartími þeirra er áætlaður 10 ár. Einnig geta íbúar sótt um breytingar á íláta stærðum fyrir hver áramót en slík breyting mun ávallt hafa í för með sér breytingargjald fyrir viðkomandi. Einnig er í skoðun útfærsla á möguleikum á færri hirðudögum, þannig þar sem ekki er föst búseta þá geti verið í boði færri hirðudagar en upplýsingar um það þyrftu að berast fyrir áramót og gilda út komandi ár.

Þar sem tæming íláta er langstærsti kostnaðarhlutinn í hirðukostnaði hjá okkur að þá verður lækkun gjalda vegna minni íláta aðeins bundinn í innkaupsverði ílátanna sjálfra.

Annar heimilisúrgangur s.s. gler, málmar, spilliefni og raftæki verður hægt að skila inn til Flokku á Sauðárkrók. Á nýju ári verður fræðsla um meðhöndlun úrgangs hjá okkur þegar við verðum komin með nýjar tunnur.

Sveitarfélögum er skylt að innheimta gjald sem næst raunkostnaði varðandi allan kostnað vegna meðhöndlunar á úrgangi og því hefur gjaldskrá ekki verið gefin út þar sem val íbúa getur haft áhrif á uppbyggingu hennar.

Bendi á að samkvæmt þessum nýju lögum getur Umhverfisstofnun beitt einstaklinga og lögaðila stjórnvaldssektum ef þeir losa úrgang með öðrum hætti en lög gera ráð fyrir. Slík sekt getur verið frá 10.000-10.000.000 kr.

Ágætu íbúar, endilega sendið á oddvita ef þið viljið aðrar stærðir af ílátum heldur en þessar sem lagt er upp með, þ.e. 660L tunnur undir pappír og pappa, 360L tunnur undir plast og 240L tunnur undir blandaðan heimilisúrgang. Upplýsingar þarf að senda á skaga.byggd@simnet.is fyrir 20. desember 2023.